Sambandsþing Ungmennasambands V-Skaftafellssýslu var haldið á Hótel Laka í gær. Þingið tókst vel og mættu 27 þingfultrúar af 30.
Góðir gestir, þau Ragnheiður Högnadóttir frá UMFÍ og Andri Stefánsson frá ÍSÍ, komu á þingið og ávörpuðu fundarmenn auk þess sem Ragnheiður heiðraði nokkra sjálfboðaliða USVS.
Starfsmerki UMFÍ fengu Kristín Lárusdóttir, Fanney Ólöf Lárusdóttir og Eva Dögg Þorsteinsdóttir. Þessar konur eru vel af starfsmerkinu komnar enda hafa þær allar verið leiðandi íþróttastarfi í Vestur-Skaftafellssýslu síðustu ár. Gullmerki UMFÍ fékk Sigmar Helgason fyrir óþrjótandi áhuga og vinnu fyrir íþróttastarfi.
Stjórnin óbreytt
Engar breytingar urðu á stjórn sambandsins. Formaður USVS er áfram Fanney Ásgeirsdóttir aðrir í stjórn eru Sif Hauksdóttir, Sigmar Helgason, Árni Jóhannsson og Ragnar S. Þorsteinsson. Stjórn mun svo skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Varastjórn skipa þær Fanney Ólöf Lárusdóttir, Sabina Victoria Reinholdsdóttir og Kristín Ásgeirsdóttir.
„Við göngum inn í nýtt starfsár, bjartsýn á framtíðina og fullviss um að framundan sé skemmtilegt sumar, fullt af íþróttamótum, samverustundum og alls konar sameiginlegri gleði,“ segir í tilkynningu frá USVS.