Ægismenn eru komnir á toppinn í riðli-2 í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Ými í Kórnum í Kópavogi í dag.
Jordan Adeyemo heldur áfram að raða inn mörkum og hann kom Ægi yfir strax á 2. mínútu og það reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Leikurinn var í járnum í seinni hálfleik og Ýmir jafnaði metin á 65. mínútu.
Allt stefndi í jafntefli en Ægismenn voru ekki hættir að skora og á 90. mínútu kom Aleksa Ivanovic þeim í 2-1. Það var svo Adeyemo sem lokaði leiknum með marki á 6. mínútu uppbótartímans og Ægir landaði 3-1 sigri.
Ægir er í toppsæti riðils-2 með 6 stig en Ýmir er í 2. sæti með 3 stig.