Sigríður Sigurjónsdóttir, kraftlyftingakona úr Íþróttafélaginu Suðra, mun keppa á kraftamótinu Arnold Disabled Strength Competition í Ohio í Bandaríkjunum í mars næstkomandi.
Sigríður vann sér þátttökurétt á mótinu þegar hún vann titilinn sterkasta fatlaða kona Íslands á Viking Strength Challenge síðasta sumar.
„Eftir sigurinn síðasta sumar hef ég æft af krafti með það í huga að keppa erlendis. Það er fyrst núna sem er verið að byggja upp og halda keppnir sem þessa fyrir fatlaða einstaklinga í heiminum. Þar sem kraftakeppnir eru ekki innan ÍSÍ þá er ég að fara þarna á eigin vegum en með fullum stuðningi Suðra og Íþróttasambands fatlaðra,“ segir Sigríður.
Fyrsta íslenska konan sem keppir á kraftamóti fatlaðra erlendis
Hún verður eini íslenski keppandinn á Arnold kraftamótinu en hún er einnig fyrsta íslenska konan sem keppir á móti sem þessu á erlendri grundu. Arnold kraftamótið var upphaflega stofnað af leikaranum og kraftakarlinum góðkunna Arnold Schwarzenegger.
Ánægð með samstarfssamning við Vor og Kaffi krús
Sigríður hefur verið að safna styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum til þess að láta drauminn rætast og í vikunni kom hún við hjá nýjustu styrktaraðilum sínum, veitingastöðunum VOR og Kaffi krús á Selfossi, þar sem hún gerði samstarfssamning og fær bæði matarúttektir og fjárstyrk.
„Þessi ferð er mjög kostnaðasöm fyrir mig þar sem ég mun einnig þurfa að taka með mér aðstoðarmann. Því hef ég verið að biðja fólk og fyrirtæki um að styrkja mig og gefa mér þannig tækifæri á að taka þátt í þessu móti,“ segir Sigríður að lokum.
Þeir sem vilja styrkja Sigríði geta fundið hana á Facebook, eða lagt inn á reikninginn hennar; 0123-15-202442, kt. 311283-2439.