Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, framherji körfuknattleiksliðs Hamars, hefur gert atvinnumannasamning við franska liðið Olympique Sannois Saint-Gratien.
Olympique Sannois Saint-Gratien leikur í þriðju efstu deild í Frakklandi. „Ég veit svo sem ekkert rosalega mikið um þetta lið en ég hef góða tilfinningu fyrir þessu,“ segir Sigrún í samtali við Morgunblaðið í dag, en hún heldur utan um helgina.
Sigrún hefur starfað sem flokksstjóri í unglingavinnunni í Borgarnesi í sumar og farið á æfingar í Hveragerði. Í viðtalinu í Morgunblaðinu kemur fram að Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, hafi hjálpað Sigrúnu við að komast á mála hjá franska liðinu og ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við Hamar.
Sigrún hefur leikið með Skallagrími, Haukum og KR hér á landi, auk Hamars en hún skoraði 12 stig að meðaltali á síðustu leiktíð og tók 8,2 fráköst.