Sigurður Sigurðarson og Loki frá Selfossi náðu glæsilegum einkunnum þegar þeir sigruðu í fjórgangi á fyrsta kvöldi Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum í Ölfushöllinni í gærkvöldi.
Það er ekki hægt að segja annað en að þetta fyrsta mót Meistaradeildarinnar hafi byrjað vel. Fullt var út úr dyrum í Ölfushöllinni í gærkvöldi og stórglæsilegir hestar dönsuðu um gólf hallarinnar.
Það var Sigurður Sigurðarson á Loka frá Selfossi sem kom, sá og sigraði. Þeir félagar voru efstir eftir forkeppni með einkunnina 7,57 og þegar A-úrslitunum var lokið stóðu þeir enn efstir með einkunnina 7,63. Glæsilegar einkunnir þar á ferðinni.
Í öðru sæti eftir forkeppni sem og úrslit var Hulda Gústafsdóttir á Kjuða frá Kirkjuferjuhjáleigu með einkunnina 7,20 í forkeppni og 7,50 í úrslitum.
Jafnir í 3. – 4. sæti í úrslitunum urðu þeir Sigurbjörn Bárðarson á Penna frá Glæsibæ og Hinrik Bragason á Sigri frá Hólabaki en þeir voru með einkunnina 7,40.
Í liðakeppninni var það lið Árbakka/Norður-Gatna sem skaust á toppinn með 48 stig, í öðru sæti er Lýsi með 45,5 stig og í því þriðja Top Reiter/Ármót/66°North með 37 stig.
Sigurður Sigurðarson, Lýsi, fór á toppinn í einstaklingskeppninni með sigrinum í kvöld og er með 12 stig, Hulda er önnur með 10 stig og Sigurbjörn og Hinrik jafnir í því þriðja með 7,5 stig.
Staðan í einstaklingskeppni að lokinni 1. umferð:
Sæti Nafn Lið
1 Sigurður Sigurðarson Lýsi 12
2 Hulda Gústafsdóttir Árbakki/Norður-Götur 10
3 Sigurbjörn Bárðarson Lýsi 7,5
3 Hinrik Bragason Árbakki/Norður-Götur 7,5
5 Bergur Jónsson Top Reiter/Ármót/66°North 6
6 Sigursteinn Sumarliðason Spónn.is 5
7 Snorri Dal Hrímnir 4
8 Hekla Katharína Kristinsdóttir Auðsholtshjáleiga 3
9 Viðar Ingólfsson Hrímnir 2
10 Jakob Sigurðsson Top Reiter/Ármót/66°North 1