Sigur eftir framlengingu í fyrsta leik

Anton Breki Hjaltason stekkur í gegnum galopna Víkingsvörnina og skorar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var hrikaleg spenna í fyrsta leik Selfoss og Víkings í úrslitakeppni 1. deildar karla í handbolta í Set-höllinni Iðu í kvöld. Selfoss hafði sigur eftir framlengdan leik.

Selfoss byrjaði illa, Víkingur komst í 1-5 en þá tóku þeir vínrauðu við sér og jöfnuðu 7-7. Í kjölfarið kom annar slæmur kafli, fram að hálfleik, en staðan í leikhléi var 10-15.

Forskoti Víkinga varð ekki haggað langt fram í seinni hálfleikin en Selfyssingar gáfust ekki upp og voru frábærir á lokamínútunum. Á fimm mínútna kafla náðu þeir að breyta stöðunni úr 24-27 í 27-27 og Jónas Karl Gunnlaugsson tryggði Selfyssingum svo framlengingu með því að jafna 28-28 þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik framlengingarinnar en í seinni hálfleiknum sýndu Selfyssingar styrk sinn og sigruðu að lokum 33-31.

Skjálfti mætti til leiks í kvöld og stemningin í stúkunni var frábær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Sölvi Svavarsson og Hannes Höskuldsson skoruðu 5, Jónas Karl Gunnlaugsson og Árni Ísleifsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Anton Breki Hjaltason, Jason Dagur Þórisson, Elvar Elí Hallgrímsson og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu 1 mark hver. Alexander varði 10 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson 2.

Liðin mætast næst í Safamýrinni á þriðjudagskvöld en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslitaeinvígi um sæti í úrvalsdeildinni, gegn Gróttu eða Herði.

Stemningin var ekki síður góð í blaðamannastúkunni þar sem „gömlu kempurnar“ Richard Sæþór Sigurðsson og Hólmar Höskuldsson lýstu leiknum á Handboltapassanum af stakri fagmennsku. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinKústurinn á lofti í Laugardalshöllinni
Næsta greinÓrói á Torfajökulssvæðinu