Sunnlensku liðin í 1. deild karla í körfubolta léku bæði á útivelli í kvöld. Hamar vann ÍA 98-112 á meðan FSu tapaði naumlega fyrir Þór Akureyri, 87-83.
Leikur ÍA o g Hamars var jafn í fyrri hálfleik, fátt um varnir og staðan var 53-54 í leikhléi, Hamri í vil. Hvergerðingar stungu síðan af í 3. leikhluta og voru komnir með 23 stiga forskot í upphafi þess fjórða. Staðan var þá 64-87 en þrátt fyrir að ÍA þjarmaði að gestunum þegar leið að lokum þá héldu Hvergerðingar haus og fögnuðu öðrum sigrinum í röð.
Danero Thomas skoraði hvorki meira né minna en 47 stig fyrir Hamar, Halldór Gunnar Jónsson kom næstur honum með 19, Snorri Þorvaldsson 14 og Aron Freyr Eyjólfsson 11.
FSu byrjaði vel á Akureyri og leiddi 11-26 að loknum 1. leikhluta en Þórsarar minnkuðu muninn í 35-41 fyrir hálfleik. Heimamenn komust svo yfir í 3. leikhluta og við tók spennandi lokafjórðungur. Þar höfðu heimamenn betur á lokasekúndunum og unnu að lokum með fjögurra stiga mun.
Ari Gylfason skoraði 26 stig fyrir FSu, Collin Pryor 23 auk þess sem hann tók 21 frákast, Hlynur Hreinsson skoraði 16 stig og Svavar Stefánsson 11.
Eftir leiki kvöldsins er FSu í 5 sæti með 10 stig en Hamar er í því sjöunda með 8 stig.