Fallið lið Selfoss vann annan leikinn í röð þegar liðið mætti HK í lokaumferð Olísdeildar kvenna í handbolta á útivelli í kvöld, 24-30.
Sigurinn breytti ekki þeirri staðreynd að Selfoss er í botnsætinu eftir veturinn með 8 stig en HK er í 7. sæti með 9 stig og fer í umspil um sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Selfoss náði undirtökunum snemma leiks og þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin 3-8. Munurinn hélst í fimm mörkum stærstan hluta fyrri hálfleiks en staðan var 11-16 í leikhléi.
Selfyssingar sigldu sigrinum örugglega í höfn í seinni hálfleik, leiddu allan tímann og náðu mest sjö marka forskoti, 13-21. HK náði að minnka muninn í þrjú mörk á lokakaflanum, 21-24, en sigur Selfyssinga var aldrei í hættu.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti frábæran leik fyrir Selfoss, skoraði 13/4 mörk en Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir voru næst markahæstar með 4 mörk. Agnes Sigurðardóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu 3, Sarah Sörensen 2 og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og var með 20% markvörslu.