Meistaramót Íslands í frjálsum 15-22 ára fór fram á Selfossi um helgina. Lið HSK/Selfoss sem sigraði stigakeppni þátttökuliða, en liðið hlaut samtals 414 stig, í öðru sæti var lið UFA með 231 stig og í því þriðja var lið Fjölnis með 195 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig í þremur aldursflokkum, í flokkum pilta og stúlkna 16-17 ára og í flokki 15 ára stúlkna.
Keppendur HSK unnu samtals 26 Íslandsmeistaratitla á mótinu. Sigursælustu keppendur HSK voru þau Helga Fjóla Erlendsdóttir Garpi sem vann sex greinar í flokki 15 ára stúlkna og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Selfossi í flokki 16 -17 ára drengja sem vann fjórar einstaklingsgreinar, auk þess að vera í sigursveitinni í boðhlaupi.
Bryndís Embla Einarsdóttir Selfossi setti mótsmet í spjótkasti stúlkna 15 ára, en lengsta kast hennar var 42,04 m. Alls voru átta mótsmet bætt á mótinu.
Helga Fjóla bætti 52 ára gamalt héraðsmet
Ellefu HSK met voru sett á mótinu. Helga Fjóla Erlendsdóttir úr Garpi bætti 52 ára gamalt HSK met í 80 metra hlaupi í fimm aldursflokkkum frá 15 ára flokki upp í kvennaflokk. Valdís Leifsdóttir hljóp 14 ára gömul á 10,5 sek með handtímatöku, sem jafngildir 10,74 með rafmagnstímatöku, á Selfossi 29. júlí 1972 og hefur met hennar staðið síðan, þar til nú þegar Helga Fjóla hljóp á 10,64 sek.
Ívar Ylur Birkisson úr Dímon stórbætti HSK metið í 110 m grindahlaupi á 91,4 cm grindur í 16-17 ára flokki þegar hann hljóp á 14,95 sek. Dagur Fannar Einarsson átti metið sem var 15,82 sek frá 2018.
Boðhlaupsveitin í 4×100 í flokki 16-17 ára drengja bætti fimm ára gamalt HSK met um 0,08 sek, sveitin hljóp á 46,33 sek. Í sveitinni voru Vésteinn Loftsson Selfossi, Ívar Ylur Birkisson Dímon, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson Selfossi og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Selfossi. Gamla metið var 46,41 sek og metið áttu þeir Dagur Fannar Einarsson, Jónas Grétarsson, Unnsteinn Reynisson og Sindri Freyr Seim Sigurðsson.
Þá setti sveit HSK/Selfoss HSK met í 4×400 metra boðhlaupi, blönduð sveit, þar sem tveir drengir og tvær stúlkur hlaupa saman. Fyrst var keppt í þessari grein á mótinu í fyrra í flokki 20-22 ára og áttu keppendur HSK ekki skráðan árangur í þessari nýju grein. Sveitin hljóp á 4:34,13 mín, sem er met í fjórum flokkum. Í sveitinni voru Helgi Reynisson Þjótanda, Aldís Hrönn Benediktsdóttir, Selfossi, Vésteinn Loftsson Selfossi og Hugrún Birna Hjaltadóttir Selfossi.