Selfoss vann dramatískan sigur á Gróttu á útivelli í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 28-29, en Grótta klúðraði vítaskoti þegar leiktíminn var liðinn.
Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum, komust í 4-7 og höfðu möguleika á að komast í 4-8, en þess í stað jafnaði Grótta metin, 7-7. Þá kom frábær kafli hjá Selfyssingum sem skoruðu sjö mörk í röð og leiddu 7-14 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Grótta klóraði í bakkann fyrir leikhlé og staðan var 12-15 þegar leikurinn var hálfnaður.
Árni Steinn Steinþórsson opnaði seinni hálfleikinn með marki fyrir Selfoss, sínu fyrsta í sínum fyrsta leik í vetur með liðinu. Selfyssingar voru frískir í framhaldinu og náðu fimm marka forskoti, 16-21. Þá komu fjögur mörk í röð frá Gróttu og leikurinn var jafn og spennandi á lokakaflanum þó að Selfyssingar hafi haft frumkvæðið.
Tvær síðustu sóknir Selfyssinga í leiknum fóru hins vegar í súginn og Grótta fékk boltann í stöðunni 28-29 þegar 22 sekúndur voru eftir. Á lokasekúndunni náði Grótta að fiska vítakast, sitt áttunda í leiknum og öll höfðu ratað í netið. Það gerði síðasta skotið hins vegar ekki því Finnur Stefánsson skaut í þverslána og Selfyssingar fögnuðu sigri.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 6/1, Hergeir Grímsson 5, Teitur Örn Einarsson 3, Árni Steinn Steinþórsson og Guðni Ingvarsson 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Sverrir Pálsson skoruðu allir 1 mark.
Grétar Ari Guðjónsson varði 15 skot í marki Selfyssinga sem lyftu sér með sigrinum upp í 4. sæti með 8 stig.