Sigurbjörn Bárðarson og Flosi frá Keldudal sigruðu í gæðingaskeiði í Meistaradeildinni í hestaíþróttum í dag. Mótið fór fram á Ármóti á Rangárvöllum.
Elvar Þormarsson sigraði í 150 metra skeiði á hestinum Blossa frá Skammbeinsstöðum.
Sigurbjörn og Flosi fengu einkunnina 6,50 í gæðingaskeiði. Artemisia Bertus og Dynfari frá Steinnesi fengu 6,21 og liðsfélagi hennar, Viðar Ingólfsson á Má frá Feti, fékk 6,13.
Sigurbjörn lyfti sér vel í stigakeppni knapa í dag og er nú kominn upp í fjórða sæti. Æsispennandi keppni verður um sigur í mótaröðinni því Jakob Svavar Sigurðsson og Artemisia Bertus eru jöfn og efst með 41 stig. Sara Ástþórsdóttir er í þriðja sæti með 34 stig.
Elvar og Blossi fengu tímann 14,92 í 150 metra skeiði og voru langfljótastir. Meiri keppni var um annað sætið, því náði Eyjólfur Þorsteinsson á Veru frá Þóroddsstöðum á tímanum 15,11. Sigurður Vignir Matthíasson á Birtingi frá Selá var með tímann 15,12.
Lokamótið verður í Ölfushöllinni næstkomandi föstudag.