Sigurður Donys Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Íþróttabandalagi Uppsveita, sem leikur í 4. deildinni.
Sigurður skrifaði undir samning við ÍBU í gærkvöldi og sömuleiðis skrifaði Óliver Jóhannsson undir leikmannasamning.
Sigurður mun þreyta frumraun sína í meistaraflokksþjálfun karla í sumar en hann á langan leikmannaferil að baki. Sigurður er uppalinn á Vopnafirði en hann hefur spilað með Þór Akureyri og uppeldisfélaginu Einherja. Sigurður þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Einherja 2015 til 2016 og hefur þjálfað ýmsa yngri flokka á Vopnafirði gegnum tíðina.
Sigurður mun búa á Flúðum í sumar og segist sjálfur spenntur fyrir þessu ævintýri. Fyrstu verkefni hans í starfi verða æfingaleikir við KM á laugardaginn í Kórnum í Kópavogi og KFB á sunnudaginn á Bessastaðavelli á Álftanesi.
Óliver Jóhannsson er 22 ára djúpur miðjumaður frá Vopnafirði en hann er frændi Sigurðar. Óliver spilaði með Fjallabyggð í 2. deild síðasta sumar en þangað kom hann frá Einherja vorið 2019.
Í tilkynningu frá Uppsveitum segir að þar á bæ séu menn gríðarlega spenntir að fá að vinna með þessum eðalmönnum í sumar og þróa liðið áfram.