Ægir og Sindri mættust í B-deild deildarbikar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í hádeginu í dag.
Sindramenn komust yfir á 9. mínútu leiksins en Sigurður Hrannar Þorsteinsson jafnaði fyrir Ægi skömmu síðar. Dimitrije Cokic og Sigurður Hrannar skoruðu svo með mínútu millibili í kringum 30. mínútu og staðan var 3-1 í hálfleik.
Sindramenn voru fyrri til að skora í seinni hálfleiknum og minnkuðu muninn í 3-2 um hann miðjan. Ægismenn áttu hins vegar síðasta orðið. Sigurður Hrannar innsiglaði þrennu sína á 80. mínútu og Anton Breki Viktorsson skoraði fimmta mark Ægis tveimur mínútum síðar og lokatölur urðu 5-2.
Þegar tvær umferðir eru eftir í riðlinum er Ægir í 3. sæti með 6 stig en Sindramenn eru á botninum án stiga.