Sunnlenskt glímufólk gerði víðreisn í backhold fangbrögðum á hálandaleikum í Skotlandi á dögunum en farið var í tvær keppnisferðir þangað í ágúst.
Í fyrri ferðinni keppti yngra glímufólkið á hálandaleikunum „Bridge of Allan“ sunnudaginn 3. ágúst en þar sigraði Guðrún Inga Helgadóttir í -54 kg flokki sem var einnig skost meistaramót, Annika Rut Arnardóttir sigraði svo opna flokk kvenna þar sem Hanna Krístín Ólafsdóttir varð í 2. sæti. Í stúlknaflokki 16 ára og yngri snérist það svo við en þar sigraði Hanna og Annika varð í 2. sæti. Í unglingaflokki varð svo Þorgils Kári Sigurðsson í 2. sæti, Eiður Helgi Benediktsson í 3. sæti og Jón Gunnþór Þorsteinsson í 4. sæti. Glæsilega gert hjá þessu unga og efnilega glímufólki.
Í seinni ferðinni var svo einn sunnlendingur, Ólafur Oddur Sigurðsson en fyrst keppti hann í hálandaleikunum “Bute Highland Games” og gerði hann sér lítið fyrir og sigraði opna flokk karla af miklu harðfylgi. Þann 24. ágúst keppti Ólafur svo á Grasmere í Englandi en það sterkasta mót ársins í þessari tegund fangbraða ár hvert. Þar gerði Ólafur sér lítið fyrir og sigraði opna flokk karla af miklu öryggi og varð þar með fyrstur íslendinga til að sigra þetta fornfræga mót. Þann 30. ágúst keppti Ólafur svo á stærstu hálandaleikum í Skotlandi ár hvert “The Cowal Gathering” og er skemmst frá því að segja að Ólafur sigraði opna flokkinn af miklu öryggi, en hann sigraði allar 18 viðureignir sínar þennan dag en þetta var þriðja árið í röð sem Ólafur sigrar þetta mót.