Hamarskonur halda áfram sigurgöngu sinni í 1. deild kvenna í körfubolta. Liðið sigraði Breiðablik á heimavelli í kvöld, 80-35, og er taplaust í fimm leikjum.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Hamar reif sig frá gestunum í upphafi 2. leikhluta með 14-2 áhlaupi og breytti stöðunni í 27-15. Staðan var 35-19 í hálfleik.
Yfirburðir Hamars voru miklir í síðari hálfleik, staðan að loknum 3. leikhluta var 62-26 og munurinn jókst um níu stig til viðbótar í lokaleikhlutanum.
Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst Hamarskvenna með 15 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 14 stig og tók 14 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 12 stig.
Hamarskonur eru einar á toppnum með 10 stig en Stjarnan hefur 8 stig og á leik til góða á Hvergerðinga.