Hamar heldur sigurgöngu sinni áfram í 1. deild karla í körfubolta en í kvöld vann liðið öruggan sigur á Skallagrími, 89-104 á útivelli í Borgarnesi.
Hamar leiddi með fjórum stigum eftir 1. leikhluta en heimamenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og komust yfir. Staðan var 50-49 í leikhléi.
Hvergerðingarnir mættu hins vegar vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og stigu ungverskan dans undir stjórn Máté Dalmay þjálfara. Hamar gerði nánast út um leikinn með frábærum sóknarleik í 3. leikhluta en eftir hann var staðan 67-81 og í þeim fjórða héldu þeir Borgnesingum í skefjum og vörðu forskotið vel.
Hamar er með fullt hús stiga eftir sjö umferðir og hefur fjórtán stig í toppsætinu.
Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 39/9 fráköst/5 stolnir, Toni Jelenkovic 20/4 fráköst/7 stoðsendingar, Pálmi Geir Jónsson 14/9 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 13, Ragnar Jósef Ragnarsson 13/5 stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 3, Bjarni Rúnar Lárusson 2, Hlynur Snær Wiium Stefánsson 0, Sigurður Dagur Hjaltason 0.