Sigurganga Selfoss heldur áfram – Ægismenn öruggir

Gonzalo Zamorano skoraði tvö mörk fyrir Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss lagði KFG og Ægir gerði jafntefli við Víking Ó í næstsíðustu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu sem leikin var í dag.

Selfyssingar byrjuðu betur á gervigrasinu í Garðabæ og Gonzalo Zamorano kom þeim yfir á 18. mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiks. Zamorano var aftur á ferðinni á 61. mínútu og Sesar Örn Harðarson kom Selfyssingum í 3-0 á 74. mínútu. KFG klóraði í bakkann í uppbótartímanum og strax í kjölfarið fékk Alexander Vokes að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Dómarinn flautað af örskömmu síðar og Selfoss sigraði 3-1.

Í Þorlákshöfn mættust Ægir og Víkingur Ó og þar komust Víkingar yfir á 12. mínútu. Stefan Dabetic jafnaði leikinn tíu mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik. Þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleiknum fengu Ægismenn vítaspyrnu og úr henni skoraði Bjarki Rúnar Jónínuson. Á 73. mínútu jöfnuðu Víkingar metin og þar við sat, þrátt fyrir efnilegar sóknir beggja liða, lokatölur 2-2.

Ægismenn hafa kveðið niður falldrauginn fyrir lokaumferðina og sitja þægilega í 8. sæti deildarinnar með 24 stig. Eftir fimm sigurleiki í röð eru Selfyssingar á toppnum með 50 stig og þeir taka á móti Ægi í lokaumferðinni næsta laugardag og fá afhent sigurlaunin í deildinni að leik loknum.

Fyrri grein„Öll viljum við vera leiðtogar í okkar eigin lífi“
Næsta greinFSu hvetur foreldra til að bregðast við