Úrslitin í fyrsta leik Þórs og KR í úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla í körfubolta réðust þegar 0,21 sekúnda var eftir af leiknum. Þá skoraði KR þriggja stiga körfu sem skildi liðin að en úrslitin voru 82-79.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Staðan var 24-27 fyrir Þór að loknum 1. leikhluta en eftir aðeins tveggja mínútna leik fór Matthew Hairston meiddur af velli hjá Þór og kom ekki aftur við sögu fyrr en á lokamínútu 1. leikhluta. Grétar Erlendsson kom sterkur inn af bekknum í hans stað og átti fínan leik. Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta og staðan var 43-41 í hálfleik fyrir KR.
Baráttan var mikil í 3. leikhluta þar sem KR hafði undirtökin framan af en Þór lokaði leikhlutanum með 0-7 áhlaupi og jafnaði 63-63. Grétar var í aðalhlutverki hjá Þór á þessum kafla og útlit fyrir spennandi lokaleikhluta.
Sú varð líka raunin og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokamínútunni. Þegar rúm mínúta var eftir var staðan 79-73 fyrir KR en Þórsarar skoruðu þá sex stig í röð og Grétar jafnaði 79-79 þegar 18 sekúndur voru eftir. Síðustu sókn leiksins áttu KR-ingar og eftir þriggja stiga skot söng boltinn í netinu á lokasekúndunni.
Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 24 stig, Grétar Ingi skoraði 20 og Darri Hilmarsson 10
Næsti leikur liðanna er á fimmtudagskvöld kl. 19:15 í Þorlákshöfn.