Sigurleikir hjá Árborg og Uppsveitum

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði tvö glæsimörk fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlensku liðin náðu góðri uppskeru í leikjum kvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu. Árborg og Uppsveitir unnu sína leiki og KFR gerði jafntefli.

Árborg fékk Knattspyrnufélag Miðbæjar í heimsókn á gervigrasið á Selfossi og þegar Árborgarar komust inn í leikinn var um einstefnu að ræða. Ingi Rafn Ingibergsson skoraði tvö glæsileg mörk um miðjan fyrri hálfleikinn og lagði svo upp það þriðja fyrir Magnús Hilmar Viktorsson. Staðan var 3-0 í hálfleik og Andrés Karl Guðjónsson bætti svo við tveimur mörkum um miðjan seinni hálfleikinn og innsiglaði 5-0 sigur Árborgar.

Það var hart barist á Hvolsvelli þar sem GG var í heimsókn hjá KFR. Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum yfir strax á 5. mínútu en gestirnir jöfnuðu tíu mínútum síðar. Heiðar Óli Guðmundsson skoraði fyrir KFR í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var 2-1 í leikhléi. Helgi Valur Smárason jók forskot KFR í upphafi seinni hálfleiks en gestirnir náðu að jafna metin með tveimur mörkum úr vítaspyrnum á lokakafla leiksins. Lokatölur 3-3.

Uppsveitir unnu góðan útisigur á Létti í Breiðholtinu. Það tók liðin nokkra stund að brjóta ísinn en heimamenn fengu vítaspyrnu á 27. mínútu og komust yfir. George Razvan jafnaði fyrir Uppsveitir skömmu síðar og staðan var 1-1 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum léku Uppsveitamenn á als oddi. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði á 62. mínútu og eftir það komu tvö góð mörk í röð frá Razvan sem innsiglaði þrennuna á 78. mínútu. Lokatölur 1-4.

Uppsveitamenn fagna sigri í kvöld. Ljósmynd/Uppsveitir
Fyrri greinGrýlupottahlaup 4/2022 – Úrslit
Næsta greinGróðursetning verði árlegur viðburður allra nemenda