„Sigurliðið“ sigraði Softballmót handknattleiksdeildar Selfoss sem haldið var um síðustu helgi. Þetta var annað árið sem mótið var haldið og heppnaðist það mjög vel.
Leikið var í fjórum riðlum og síðan léku efstu tvö liðin í hverjum riðli í hefðbundinni útsláttarkeppni. Að lokum var það Sigurliðið sem hafði betur gegn liðinu Sverrir Pálsson. Þeir fengu að launum gjafabréf í Kaffi Krús.
Landslið örvhentra sigraði svo lið GP Dildo & co í leik um bronsið. Þessi lið fengu vinninga í boði Hamborgarabúllu Tómasar og Pylsuvagnsins.
Að softballmótinu loknu var haldið hið árlega bjórkvöld þar sem Einar Þorvarðarson hóf kvöldið með áhugaverðu erindi um stöðu íslenska landsliðsins o.fl. Verðlaun voru afhent fyrir softballmótið og þar var m.a. úrvalslið áhugaverðra leikmanna valið ásamt búningaverðlaunum og elsti markaskorarinn verðlaunaður. Einnig var boðið upp á pílukastkeppni þar sem veglegir vinningar voru í boði frá TRS, Hótel Íslands og Fjöruborðsins.
Elsti markaskorari mótsins var Kristinn Þorkelsson og búningaverðlaunin fóru til Coolbet-skátanna. Úrvalslið áhugaverðra leikmanna var skipað þeim Hirti Leó Guðjónssyni, Karli B. Larsen, Sólrúnu Sigurðardóttur og Ramunas Mikalonis.
Viðar Ingólfsson sigraði pílukastskeppnina og sannaði þar enn á ný fjölhæfni sína sem íþróttamaður. Brad Egan varð í 2. sæti og Tómas Steindórsson í 3. sæti.