Ægismenn unnu nauman 3-2 sigur á Vængjum Júpíters þegar Íslandsmótið í 3. deild karla í knattspyrnu hófst í kvöld.
Ægismenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en fóru illa með færi sín. Milan Djurovic kom þeim yfir á 33. mínútu eftir snarpa sókn en markið lyktaði af rangstöðu. Staðan var 1-0 í hálfleik.
Vængirnir flugu tvíefldir af stað inn í síðari hálfleikinn og komust yfir með tveimur mörkum á skömmum tíma. Gunnar Marteinsson skoraði úr vítaspyrnu á 57. mínútu og sex mínútum síðar kom Ríkharð Snorrason þeim yfir. Sæla Vængjanna var þó skammvinn því Djurovic jafnaði metin fyrir Ægi á 69. mínútu. Markið kom beint úr glæsilegri aukaspyrnu í þverslána og inn.
Allt útlit var fyrir jafntefli þrátt fyrir ágæt færi beggja liða. Varnirnar voru nokkuð þéttar og Guðmundur Sigurbjörnsson, markvörður Ægis, var vel með á nótunum.
Í uppbótartíma fengu Ægismenn aukaspyrnu á vinstri kantinum, boltinn barst inn í teig og Arnar Skúli Atlason skallaði knöttinn af harðfylgi í netið og skoraði sigurmark Ægis. Tveimur mínútum síðar flautaði Kjartan Björnsson, dómari, til leiksloka.