Hamar komst í kvöld í 32-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur á Berserkjum. Ægir tapaði 3-4 fyrir Grindavík.
Fyrri hálfleikur í leik Berserkja og Hamars var markalaus allt fram á lokamínútuna að Hermann Ágúst Björnsson kom boltanum í netið og Hamar leiddi 0-1 í hálfleik.
Berserkir jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks og staðan var 1-1 allt fram á 90. mínútu að Atli Hjaltested skoraði og tryggði Hamri farseðilinn í 32-liða úrslitin.
Ægismenn áttu erfitt uppdráttar gegn 1. deildarliði Grindavíkur í gjólunni í Þorlákshöfn í kvöld. Gestirnir komust yfir strax á 7. mínútu leiksins og stjórnuðu leiknum eftir það. Annað mark Grindavíkur kom á 30. mínútu en strax í næstu sókn labbaði Haukur Már Ólafsson í gegnum vörn Grindvíkinga og minnkaði muninn í 1-2.
Gestirnir náðu hins vegar 1-3 forystu á 36. mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu sem var ódýrari en kaffið í vallarsjoppunni og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Strax á 5. mínútu síðari hálfleiks virtust Grindvíkingar hafa gert út um leikinn þegar þeir skoruðu sitt fjórða mark. Í kjölfarið héldu þeir boltanum vel innan liðsins á meðan Ægismenn komust ekkert áleiðis í sókninni.
Það breyttist hins vegar á 68. mínútu þegar Gunnar Marteinsson minnkaði muninn í 2-4 eftir skemmtilega útfærða aukaspyrnu fyrir utan vítateig Grindvíkinga. Gestirnir voru eitthvað slegnir út af laginu við þetta því sex mínútum síðar slapp Haukur Már einn innfyrir og kláraði snyrtilega með sínu öðru marki.
Lengra komust Ægismenn ekki og Grindvíkingar verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslitin í hádeginu á morgun.