Predrag Dordevic tryggði Ægismönnum þrjú stig með sigurmarki á lokamínútu leiksins gegn Sindra í dag þegar liðin mættust á Hornafirði í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu.
Leikurinn var í járnum allan tímann, Ægismenn lágu til baka og vörðust skipulega og áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir.
Sindramenn fengu líka sín færi en Magnús Karl Pétursson, markvörður Ægis, hélt búrinu hreinu og varði meðal annars í tvígang með tilþrifum.
Allt virtist stefna í markalaust jafntefli en á lokamínútu leiksins geystust Ægismenn í skyndisókn og Dordevic batt endahnútinn á hana með sigurmarkinu.
Eftir leikinn eru Ægismenn í 4. sæti riðilsins með 16 stig, þremur stigum á eftir Berserkjum sem eru á toppnum.