Sigurmark í uppbótartíma í Suðurlandsslagnum

Bjarki Rúnar Jónínuson og Sigurður Ísak Ævarsson fagna marki þess fyrrnefnda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Hamar sigraði Árborg á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Uppsveitir töpuðu heima gegn toppliði Vængja Júpíters.

Það var alvöru nágrannaslagur og dramatík í boði á Selfossi, þar sem Árborg tók á móti Hamri. Hamarsmenn voru sterkari í upphafi leiks og Bjarki Rúnar Jónínuson kom þeim yfir á 11. mínútu og tveimur mínútum síðar sundurspiluðu Hamarsmenn Árborgarvörnina sem lauk með því að Máni Snær Benediktsson kom boltanum í netið. Hamar varð fyrir áfalli á 35. mínútu þegar Matthías Ramos Rocha fór meiddur af velli úr hjarta varnarinnar. Árborgarar gengu á lagið, Sigurður Óli Guðjónsson minnkaði muninn á 38. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Kristinn Ásgeir Þorbergsson. Staðan 2-2 í hálfleik.

Árborg var meira með boltann í seinni hálfleik en gekk illa að finna færin gegn þéttri vörn Hamars. Í uppbótartímanum fengu Hvergerðingar svo aukaspyrnu á stórhættulegum stað og úr henni skoraði Guido Ranchez sigurmarkið. Nokkrum sekúndum áður hafði Rodrigo Depetris fengið tvö gul spjöld og eitt rautt en liðsmunurinn jafnaðist í uppbótartímanum þegar Ingi Rafn Ingibergsson fékk sitt annað gula spjald og bæði lið luku leik með 10 leikmenn inná.

Uppsveitir fengu Vængi Júpíters í heimsókn á Flúðir í kvöld og þar reyndust gestirnir sterkari. Árni Sigursteinsson kom Vængjum yfir á 33. mínútu og staðan í hálfleik var 0-1. Aron Páll Símonarson bætti við marki fyrir Vængi strax í upphafi seinni hálfleiks og Andri Freyr Björnsson tryggði gestunum 0-3 sigur með marki af vítapunktinum í uppbótartímanum.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í 2. sæti með 26 stig, Hamar í 6. sæti með 18 stig og Uppsveitir á botninum með 3 stig.

Önnur úrslit í 12. umferð 4. deildarinnar:

KÁ 0 – 3 KH
0-1 Sigfús Kjalar Árnason (‘6)
0-2 Baldvin Orri Friðriksson (’79)
0-3 Baldvin Orri Friðriksson (’88)

Álftanes 0 – 1 KFK
0-1 (‘77)

Fyrri greinÆgismenn komu til baka
Næsta greinSkráningu á unglingalandsmót lýkur á mánudag