Sigursteinn Sumarliðason á Arnari frá Blesastöðum 2a, sigraði í 150 m skeiði og Viðar Ingólfsson á Má frá Feti í gæðingaskeiði á skeiðmóti Meistaradeildarinnar sem haldið var í Hafnarfirði í dag.
Skeiðmótið var haldið í blíðskapar veðri á félagssvæði Sörla í Hafnarfirði.
EIns og áður sagði var það Sigursteinn Sumarliðason sem sigraði 150 m skeiðið á tímanum 16,69 en besta tíma dagsins 15,11 átti Sigurður V. Matthíasson á Zeldu frá Sörlatungu og hafnaði hann í öðru sæti í úrslitunum. Þriðji varð Teitur Árnason á Veigari frá Varmalæk.
Í gæðingaskeiði stóð Viðar Ingólfsson efstur eftir fyrri umferð með einkunnina 8,00 en þeir félagar gerðu enn betur í seinni umferð og hlutu þar einkunnina 8,17 og 8,08 í aðaleinkunn eftir báðar umferðir. Í öðru sæti varð Sigurður Sigurðarson á Freyði frá Hafsteinsstöðum með einkunnina 7,92 og þriðji varð Sigurbjörn Bárðarson á Flosa frá Keldudal með einkunnina 7,88.
Í einstaklingskeppninni hefur Sigurður Sigurðarson, Lýsi, aukið forskot sitt á næsta keppanda sem er Sigurbjörn Bárðarson, Lýsi, með 37,5 stig og fast á hæla honum í þriðja sæti er Viðar Ingólfsson, Hrímnir, með 37 stig.
Í liðakeppninni trónir lið Lýsis enn á toppnum með 263,5 stig og í öðru sæti er Árbakki/Norður-Götur með 219,5 stig. Í þriðja sæti er síðan lið Hrímnis með 198 stig en næstu sæti þar á eftir eru þétt skipuð því einungis 2,5 stig skilja að þriðja og fimmta sætið.