Iðkendur fimleikadeildar Selfoss sem kepptu á Evrópumótinu í hópfimleikum dagana um síðustu helgi í Portúgal náðu stórkostlegum árangri með liðum sínum og komust öll á verðlaunapall.
Stúlknalið Íslands hlaut silfurverðlaun eftir frábærar æfingar á öllum áhöldum, aðeins 0,1 stig á eftir liði Svíþjóðar sem varð Evrópumeistari. Fjórir iðkendur frá fimleikadeild Selfoss voru í stúlknaliðinu, þær Auður Helga Halldórsdóttir, Birta Sif Sævarsdóttir, Evelyn Þóra Jósefsdóttir og Karolína Helga Jóhannsdóttir.
Fimmti keppandinn frá Umf. Selfoss á mótinu var Sindri Snær Bjarnason, sem keppti með blönduðu liði unglinga hafnaði í 3. sæti með liði sínu sem stóð sig einstaklega vel í harðri keppni.
Árangur íslensku liðanna er eftirtektarverður en Ísland átti fjögur lið á mótinu, tvö lið í unglingaflokki og tvö í fullorðinsflokki og komust þau öll á verðlaunapall. Kvennalið Íslands vann Evrópumeistaratitil og karlalið Íslands hafnaði í 2. sæti en í því liði er Eysteinn Máni Oddsson sem uppalinn er á Selfossi.

Auður Helga verðlaunuð
Shooting star verðlaun hafa verið veitt á mótinu frá árinu 2018 en þau hljóta einn fimleikamaður og ein fimleikakona hljóta. Verðlaunin miða að því að setja fimleikafólk með einstaka sögu í sviðsljósið. Auður Helga hlaut þessi verðlaun á mótinu en hún er 16 ára gömul. Auður Helga er ekki aðeins frábær fimleikakona í landsliði Íslands, hún er einnig hæfileikarík knattspyrnukona og hefur einnig verið valin í landsliðsverkefni þar, auk þess sem hún á glæstan feril í frjálsum íþróttum. Fyrir utan íþróttahæfileika sína spilar Auður Helga á flautu og sinnir skólanum af kostgæfni. Hún er mikil fyrirmynd og innblástur fyrir komandi kynslóð.
