Knattspyrnufélag Árborgar tapaði naumlega fyrir Siglingafélaginu Ými í úrslitaleik C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Árborgarar byrjuðu illa í leiknum og fengu á sig mark eftir 30 sekúndur. Tvö mörk til viðbótar fylgdu frá Ýmismönnum í fyrri hálfleik og staðan var 0-3 í leikhléi.
Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Árborgara sem gerðu harða hríð að marki Ýmis. Magnús Helgi Sigurðsson skoraði tvívegis og staðan var 2-3 þegar tíu mínútur voru eftir.
Árborgarar óðu í færum á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki og Ýmismenn sigldu með bikarinn og 200.000 króna ávísun heim í Kópavog.