Silfur til Selfoss í sveitakeppni

Silfursveit Selfyssinga (f.v.) Þór Davíðsson, Úlfur Þór Böðvarsson, Ýmir Örn Ingólfsson, Hrafn Arnarsson og Haukur Þór Ólafsson.

Selfyssingar urðu í öðru sæti í sveitakeppni karla í júdó um síðustu helgi. Selfyssingurinn Þór Daviðsson var án efa glímumaður mótsins.

Þór vann báðar sínar viðureignir þar á meðal á móti Þormóði Jónssyni margföldum Íslandsmeistara og Ólympíufara.

Aðeins voru fjórar sveitir skráðar til leiks en á síðustu stundu forfallaðist einn keppandinn hjá KA og ekki náðist í varamann og KA varð að hætta við þátttöku. Sveitirnar sem kepptu voru sveitir JR-A og JR -B auk sveitar Selfoss. Hvorki Selfoss né Júdófélag Reykjavíkur gátu stillt upp sínu sterkasta liði að þessu sinni þar sem nokkrir keppendur eru nú í Japan við æfingar og keppni, meðal annars Selfyssingurinn Egill Blöndal

Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og margar skemmtilegar viðureignir sem gjarnan enduðu á ippon kasti.

Leikar fóru þannig þegar upp var staðið að sveit JR-A sigraði og er Íslandsmeistari 2018 í sjötta skipti í röð og í 18. skipti alls. Í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit JR-B.

Fyrri greinMíla kaupir ljósleiðarakerfi í Fljótshlíð, Landeyjum og Hvolhreppi
Næsta greinHeimildarmyndin Útvörðurinn sýnd í Bíóhúsinu