Sindri Freyr Seim Sigurðsson, frjálsíþróttamaður úr Umf. Heklu, mun keppa í 80 metra spretthlaupi á European U16 Sprint Festival í Rieti á Ítalíu um helgina.
Mótið er boðsmót fyrir alla Evrópu en þangað er boðið hlaupurum af báðum kynjum, fæddum árið 2003, sem þótt hafa staðið uppúr í spretthlaupum á árinu.
Sindra er boðið á mótið ásamt Glódísi Eddu Þuríðardóttur frá Akureyri. Rúnar Hjálmarsson mun fara með þeim út sem þjálfari og farastjóri, en Rúnar hefur þjálfað Sindra síðustu fimm árin má því segja að um svokallað uppskerumót sé að ræða hjá þeim félögum.
Að sögn Rúnars er mótið er undirbúningur fyrir EM 18 ára og yngri sem verður haldið árið 2020.
„Þessir krakkar munu gera tilkall til þess að komast á það mót eftir tvö ár, þannig að mótið á Ítalíu er frábær vettvangur til að sjá hvar þau standa miðað við sína jafnaldra, og svo geta þau hafið undirbúning fyrir EM 2020 þegar þau koma heim,“ segir Rúnar.