Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Umf. Heklu, setti glæsilegt héraðsmet í 400 m hlaupi 15 ára pilta á Góumóti FH í frjálsum íþróttum sem fram fór í Kaplakrika síðastliðinn laugardag.
Sindri Freyr hljóp á 55,03 sekúndum og bætti met Dags Fannars Einarssonar, Umf. Selfoss, um 0,02 sekúndur.
Heklumaðurinn hraðskreiði bætti svo við tveimur gullverðlaunum til viðbótar á Góumótinu en hann sigraði einnig í 400 m hlaupi og langstökki í flokki 15 ára pilta.
Dagur Fannar varð þrefaldur Góumeistari á mótinu í flokki 16-17 ára, sigraði í 60 m hlaupi, 400 m hlaupi og langstökki.
Sebastian Þór Bjarnason, Umf. Selfoss, vann sömuleiðis þrefaldan sigur, en hann fékk gullverðlaun í 60 m hlaupi, langstökki og kúluvarpi í flokki 14 ára pilta.
Birta Sigurborg Úlfarsdóttir, Íþf. Dímon, sigraði í 60 m hlaupi og 400 m hlaupi í flokki 15 ára stúlkna og Birna Sólveig Kristófersdóttir, Umf. Kötlu, sigraði í langstökki í flokki 16-17 ára stúlkna.
Alls kepptu 23 keppendur frá Suðurlandi á Góumótinu og náðu þeir 38 sinnum á verðlaunapall, og fjölmargar persónulegar bætingar litu dagsins ljós.