Æskulýðsnefnd hestamannafélagsins Sindra í Mýrdal fékk afhentann hinn eftirsótta Æskulýðsbikar landssambands hestamanna á formannafundi LH í síðustu viku.
Ár hvert velur Landsamband hestamanna það félag sem þykir skara framúr og vera til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi sínu af þeim 47 félögum sem innan sambandsins eru.
Hestamannafélagið Sindri hefur verið starfrækt í 64 ár og hefur aðsetur að Péturseyjarvelli við Pétursey í Mýrdal. Starfssvæði félagsins nær frá Álftaveri í austri til Landeyja í vestri og er félagafjöldi um 140 manns.
Æskulýðsstarf félagsins hefur undanfarin ár verið afar öflugt og fjölbreytt en meðal þess sem framkvæmt var í ár var t.d. æfingabúðir, bingó, reiðskólar, fyrirlestrar, skemmtikvöld, leikjadagur, æskulýðsreiðtúr, æskulýðsmót, námskeið og sýningar. Síðast en ekki síst var farin ferð með hóp unglinga á heimsmeistarmót íslenska hestsins í Berlín í sumar. Sú ferð hafði verið í undirbúiningi síðastliðin tvö ár þar sem krakkarnir söfnuðu sér alfarið fyrir ferðinni af mikilli elju og uppskáru erindi sem erfiði í vel heppnaðri ferð.