Sindri Freyr íþróttamaður Rangárþings ytra 2019

Björk sótti Sindra heim og afhenti honum verðlaunin. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Sindri Freyr Seim Sigurðsson hefur verið útnefndur íþróttamaður Rangárþings ytra fyrir árið 2019.

Það er heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd sem ákveður hver hlýtur titilinn eftir tilnefningar frá íþróttafélögum í sveitarfélaginu. Þar sem öllum viðburðum þar sem til stóð að veita viðurkenninguna á þessu ári var aflýst var brugðið á það ráð að heimsækja Sindra Frey og afhenti Björk Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, honum viðurkenninguna.

Sindri Freyr er 17 ára og einn efnilegasti frjálsíþróttamaður landsins. Árið 2019 setti hann 10 HSK met í 200 m hlaupi og boðhlaupum. Hann varð Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára í 100 m, 200 m og 4×100 m boðhlaupi. Helsta afrek hans á árinu 2019 var ná 6. sæti í 200 m hlaupi á Gautaborgarleikunum í Svíþjóð, þar sem hann hljóp á 22,97 sek í mótvindi og bætti 32 ára gamalt HSK met Ólafs Guðmundssonar í flokki 18-19 ára pilta.

Sindri Freyr hefur sett sér háleit markmið og það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með honum í framtíðinni.

Fyrri greinFjórir ökumenn undir áhrifum fíkniefna
Næsta greinKirkjuhvoll fékk veglega gjöf frá kvenfélaginu Bergþóru