Sindri Freyr íþróttamaður Rangárþings ytra 2020

Sindri með viðurkenninguna. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Frjálsíþróttamaðurinn Sindri Freyr Seim Sigurðsson hefur verið valinn íþróttamaður Rangárþings ytra annað árið í röð. Hann fékk viðurkenninguna afhenta á heimili sínu í dag.

Það er heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd Rangárþings ytra sem ákveður hver það er sem hlýtur titilinn eftir tilnefningar frá íþróttafélögum í sveitarfélaginu. Sindri hefur látið til sín taka á hlaupabrautinni undanfarin ár og er einn fremsti hlaupari landsins.

Hann varð Íslandsmeistari innanhúss í 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára og einnig í 4×200 m boðhlaupi með sveit HSK/Selfoss. Utanhúss varð hann Íslandsmeistari í 100 m og 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára og einnig í 4×100 m boðhlaupi með sveit HSK/Selfoss í flokki 20-22 ára. Sama sveit sló héraðsmetið í 4×100 m boðhlaupi innanhúss í flokki 20-22 ára og sjálfur tvíbætti Sindri héraðsmetið í sínum aldursflokki í 200 m hlaupi innanhúss og í 100 m hlaupi utanhúss.

Sindri hefur lítið keppt í vetur en hann ætlar að einbeita sér að mótum utanhúss á þessu ári.

Fyrri greinVildi prófa að vera valdamesta kona heims – eða Guðni Ágústsson
Næsta greinGlæsilegur urriði í Ytri-Rangá