Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skoraði öll mörk Maccabi Tel Aviv í 3-0 sigri á Hapoel Ironi Kiryat Shmona í ísraelsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Þetta var mikilvægur sigur fyrir Maccabi Tel Aviv en liðið er nú tveimur stigum á eftir toppliði Hapoel Be’er Sheva, sem á leik til góða.
Fyrir leikinn var Viðar markahæstur í deildinni með 11 mörk ásamt Anthony Nwakaeme leikmanni toppliðsins en nú er Selfyssingurinn einn markahæstur í deildinni með 14 mörk.
Viðar skoraði fyrsta markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks en staðan var 1-0 í hálfleik. Annað markið kom á 68. mínútu og það þriðja átta mínútum fyrir leikslok. Viðar fékk svo heiðursskiptingu á 89. mínútu.