Meistaramót öldunga í frjálsíþróttum fór fram í Laugardalshöllinni fyrr í mánuðinum. Keppt var í fjölmörgum greinum og var þátttakan góð.
Sjö keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt og unnu samtals fimmtán verðlaun á mótinu og þar af átta Íslandsmeistaratitla.
Sjö HSK met voru sett á mótinu. Víðir Þór Þrastarson Selfossi bætti eigið met í 200 metra hlaupi í flokki 35 – 39 ára, en hann hljóp á 25,08 sek.
Garpsmaðurinn Yngvi Karl Jónsson setti fjögur HSK met í flokki 55 – 59 ára. Eitt í langstökki og þrjú í hástökki. Byrjaði á að jafna met Markúsar Ívarssonar í hástökki þegar hann stökk 1,25 m og stökk svo yfir 1,30 og 1,35. Yngvi Karl bætti svo met Markúsar í langstökki um þrjá sentimetra, þegar hann stökk 3,90 metra.
Þá setti Sigmundur Stefánsson úr Þjótanda tvö HSK met í kúluvapi í flokki 70 – 74 ára með 4 kg. kúlu, en hann kastaði 6,93 metra og bætti síðar í kastseríunni um betur og kastaði 7,29 metra.