Vallaskóli á Selfossi átti sjö fulltrúa í úrslitum Pangea stærðfræðikeppninnar sem fram fóru í Reykjavík í lok apríl. Þar kepptu 35 bestu nemendur hvers árgangs til úrslita úr hópi 1.000 nemenda í 45 skólum.
Pangea er vel þekkt sem keppni í stærðfræði, haldin árlega í tuttugu evrópskum löndum og nú í fyrsta sinn á Íslandi. Gífurlegur fjöldi evrópskra ungmenna tekur þátt en keppnin er skemmtileg og krefjandi keppni, ætluð nemendum í 8. og 9. bekk. Auk þess að auka áhuga á stærðfræði undirbýr keppni sem þessi ungt fólk fyrir stærri stærðfræðimót og hjálpar þeim að þróa getu sína til að hugsa og leysa flókin stærðfræðidæmi.
Fjörutíu nemendur úr Vallaskóla tóku þátt í fyrstu lotu keppninnar. Alls komust 24 þeirra í aðra umferð og sjö nemendur komust alla leið í úrslit. Vallaskóli átti því 10% af öllum keppendum þegar kom að úrslitarimmunni.
Það voru þau Benedikt Nökkvi Sigfússon 9. MIM, Elísabet Sandra Guðnadóttir 9. BA, Ágúst Máni Þorsteinsson 8. SAG, Hildur Helga Einarsdóttir 8. KH, Íris Ragnarsdóttir 8. SAG, Rúnar Baldursson 8. SAG og Unnur María Ingvarsdóttir 8. SAG.
Þeim gekk öllum vel og mjög mjótt var á mununum á milli nemenda í efstu sætunum. Unnur María hreppti þriðja sæti í hópi 8. bekkinga og var hún aðeins tveimur stigum frá fyrsta sætinu. Frábær árangur hjá henni.
„Við í Vallaskóla munum að sjálfsögðu taka þátt í keppninni að ári því þetta ferðalag er bæði búið að vera mjög skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Sigríður Anna Guðjónsdóttir, stærðfræðikennari.