Ægis vann stórsigur á KH í 3. deild karla í kvöld, 7-1, og skoraði Eyþór Guðnason þrennu í leiknum.
Þrátt fyrir að lokatölurnar væru glæsilegar var sigurinn ótrúlega torsóttur fyrir Ægismenn. Þeir höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa mörg færi og þau sem gáfust fóru í súginn. Vindurinn setti líka sinn svip á leikinn í fyrri hálfleik þar sem hann stóð á aðra hlið vallarins í Þorlákshöfn.
Eyþór Guðnason átti gott skot að marki á 14. mínútu sem markvörður gestanna varði í horn og uppúr horninu fékk Ársæll Jónsson boltann óvænt á markteignum en knötturinn þvældist um tærnar á honum og KH hreinsaði frá.
Á 28. mínútu sólaði Lárus Guðmundsson sig inn á vítateig KH og renndi boltanum framhjá markverðinum á Luc Mahop sem var á auðum sjó en varnarmaður komst fyrir skot hans. Eyþór Guðnason átti svo síðasta færið í fyrri hálfleik þegar hann skaut rétt framhjá á 42. mínútu.
Fyrri hálfleikur markalaus en Ægismenn byrjuðu af krafti í seinni hálfleik og fyrsta markið lá loftinu. Það var því algjörlega gegn gangi leiksins að KH komst yfir á 55. mínútu eftir skyndisókn og sendingu fyrir frá vinstri. Þar var Ægismaðurinn Pálmi Jóhannsson aleinn á fjærstöng en hann setti fótinn í boltann og beint í mark.
Stuttu síðar fékk Ársæll Jónsson dauðafæri eftir að KH menn klikkuðu illilega á rangstöðureglunni en Ársæll skaut yfir af markteig úr galopnu færi.
Alfreð Ægisþjálfari gerði breytingu á 57. mínútu, tók Luc Mahop af velli og setti Milan Djurovic inná og þá hófust sóknaraðgerðir Ægis fyrir alvöru. Djurovic jók hraðann í leik Ægis til muna og kom KH í vandræði hvað eftir annað.
Það tók Djurovic aðeins sex mínútur að setja mark sitt á leikinn, hann slapp innfyrir og lyfti boltanum yfir markvörð KH og líka yfir markið. Djurovic leitaði hins vegar að snertingunni frá markmanninum og lét sig detta og dómari leiksins flautaði víti. KH menn voru skiljanlega ósáttir en dómnum var ekki breytt og Eyþór Guðnason fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Síðustu tuttugu mínúturnar opnuðust svo allar flóðgáttir. Á 71. mínútu komst Djurovic í boltann í öftustu víglínu KH og renndi fyrir á Ársæl sem átti ekki í neinum vandræðum í þetta sinn að hamra boltann í netið.
Tveimur mínútum síðar hljóp Djurovic með boltann inn í teig þar sem hann var felldur og dómarinn dæmdi aðra vítaspyrnu og í þetta sinn lék enginn vafi á því. Varnarmaður KH fékk sitt seinna gula spjald fyrir brotið og var sendur í bað. Eyþór fór aftur á punktinn og skoraði örugglega.
Á 77. mínútu kórónaði Eyþór svo þrennuna. Michael Jónsson fékk boltann innfyrir vörn KH og virtist vera að missa af honum en náði sendingu fyrir frá endalínunni þar sem Eyþór var aleinn og skoraði auðveldlega. Þremur mínútum síðar skoraði svo Michael fimmta markið þar sem hann lúrði á fjærstöng eftir hamagang í vítateig KH.
Milan Djurovic skoraði svo eina mark sitt á 86. mínútu eftir gott spil Ægis gegnum vörn KH og snyrtilega afgreiðslu framhjá markverðinum. Þremur mínútum síðar fékk varamaðurinn Þorkell Þráinsson frían skalla við markteiginn en boltinn fór yfir.
Varamaðurinn Matthías Björnsson kórónaði svo 7-1 sigur á 93. mínútu með stórglæsilegu marki. Eftir atgang í vítateig KH varði Michael á línu, boltinn fór fyrir fætur Matthíasar sem hafði ekki mikið fyrir því að setja hann í markið.
Sigurinn kom Ægi upp í 4. sæti B-riðils með 6 stig og markatala liðsins batnaði til muna.