Sjötta tap Ægis í röð

Ivo Braz. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn töpuðu sjötta leiknum í röð í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar Grindavík kom í heimsókn. Lokatölur í baráttunni um Suðurstrandarveginn urðu 1-3.

Veðrið setti svip sinn á leikinn í kvöld, það var rok og rigning, en Ægismenn létu það ekki á sig fá og litu vel út framan af leik. Það er samt ekki spurt að því en eftir hálftíma skoraði Grindavík tvö mörk á þremur mínútum, þvert á gang leiksins. Strax í kjölfarið minnkaði Ivo Braz muninn með frábæru marki þar sem Ægismenn léku sér að vörn Grindvíkinga og undir lok fyrri hálfleiks fengu Ægismenn tvö góð færi til að jafna. Það tókst ekki og staðan var 1-2 í leikhléi.

Grindvíkingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og þeir náðu þriðja markinu á 54. mínútu. Skömmu síðar braut Stefán Þór Hannesson, markvörður Ægis, á leikmanni Grindavíkur innan teigs og gestirnir fengu víti en það fór í súginn, boltinn himinhátt yfir. Leikurinn fjaraði nokkuð út síðasta hálftímann en Ægismenn voru nær því að bæta við marki.

Ægir er áfram á botni deildarinnar með 1 stig en Grindavík er í 3. sæti með 14 stig.

Fyrri greinHeart Attack Drag show kemur á Selfoss
Næsta greinNíu sækja um starf byggðaþróunarfulltrúa