Ægismenn töpuðu sjöunda leiknum í röð í 2. deild karla í knattspyrnu þegar þeir heimsóttu Hött/Huginn á Villa Park á Egilsstöðum í dag.
Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en strax á 3. mínútu seinni hálfleiks komust heimamenn yfir. Höttur/Huginn bætti svo öðru marki við tíu mínútum fyrir leikslok, án þess að Ægismenn næðu að svara fyrir sig. Lokatölur leiksins urðu 2-0.
Ægir hefur styrkt framlínuna hjá sér í félagaskiptaglugganum sem nú er að loka. Aron Daníel Arnalds sem kom frá ÍR var í byrjunarliðinu í dag og Hollendingurinn Geoffrey Castillion kom inná þegar tæpar tíu mínútur voru eftir en hvorugum þeirra tókst að koma boltanum í netið.
Ægismenn eru áfram í 10. sæti deildarinnar með 15 stig en Höttur/Huginn lyfti sér upp í 5. sætið og er nú með 24 stig.