Selfyssingar halda áfram góðri siglingu í 2. deild karla í knattspyrnu en í kvöld sigruðu þeir Víði á útivelli í Garðinum 1-4.
Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir á 20. mínútu og hann var aftur á ferðinni á 44. mínútu og staðan var 0-2 í hálfleik.
Víðismenn náðu að minnka muninn á fyrstu mínútu seinni hálfleiks, en það kom ekki að sök. Kenan Turudija kom Selfyssingum í 1-3 fjórum mínútum síðar og þeir vínrauðu kláruðu leikinn af miklu öryggi. Jökull Hermannsson innsiglaði 1-4 sigur Selfoss með góðu marki fimm mínútum fyrir leikslok.
Þetta var sjöundi sigur Selfoss í röð í deildinni. Topplið Kórdrengja vann KF 0-1 á útivelli í kvöld, þannig að staðan á toppnum er óbreytt þar sem Kórdrengir og Selfoss hafa nú 34 stig og Njarðvík er í 3. sæti með 30 stig.