Skagamenn sópuðu Hamri út

Hamar er úr leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta eftir 86-72 tap gegn ÍA á Akranesi í kvöld. Skagamenn unnu því einvígið 0-2.

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og komust í 11-2 en þá duttu Hvergerðingar í gang og leikurinn jafnaðist. Staðan var 23-16 eftir 1. leikhluta.

Skaginn var skrefinu á undan í 2. leikhluta og 13-2 leikkafli um miðjan leikhlutann kom þeim í nítján stiga forystu, 41-22. Hvergerðingar klóruðu í bakkann fyrir leikhlé en staðan í hálfleik var 48-31.

Hamarsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik en gekk illa að brúa bilið í stigaskorinu og munurinn hélst sá sami, 69-52. Hvergerðingar gerðu áhlaup í upphafi síðasta fjórðungsins og minnkuðu þá muninn í 73-61 en nær komust þeir ekki. Skagamenn sigldu öruggum sigri í höfn og sendu Hvergerðinga í sumarfrí.

Calvin Wooten var skástur í liði Hamars og skoraði 30 stig. Louie Kirkman skoraði 13 stig og Ragnar Nathanaelsson 10 auk þess að taka 8 fráköst.

Fyrri greinSkoða hagræðingu í mötuneytismálum
Næsta greinVg í Árborg varar við verslunarmiðstöð