Skallagrímur jafnaði

Jose Medina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Skallagrímur mættust í öðrum leik sínum í úrslitaviðureign 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Borgarnesi urðu 86-81 eftir miklar sveiflur í lokin.

Skallagrímur byrjaði betur í leiknum og leiddi 21-15 að loknum 1. leikhluta. Hamar svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og jafnaði 36-36 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þriðji leikhluti var í járnum framan af en Skallagrímur gerði áhlaup um hann miðjan og leiddi með tíu stigum þegar 4. leikhluti hófst, 67-57.

Síðasti fjórðungurinn var ótrúlega sveiflukenndur. Hamar gerði 19-5 áhlaup og komst í 76-81 þegar 2 mínútur og 40 sekúndur voru eftir. Þar með var stigasöfnun Hamars lokið í kvöld því Skallagrímur skoraði síðustu tíu stigin í leiknum og tryggði sér 86-81 sigur.

Staðan í einvíginu er 1-1 og liðin mætast næst í Hveragerði á miðvikudaginn. Þrjá sigra þarf til þess að tryggja sér úrvalsdeildarsætið.

Skallagrímur-Hamar 86-81 (21-15, 15-21, 31-21, 19-24)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 33/7 fráköst/7 stoðsendingar, Brendan Howard 13/9 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 10, Alfonso Birgir Gomez 9, Ragnar Agust Nathanaelsson 6/10 fráköst/4 varin skot, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Daði Berg Grétarsson 4/9 fráköst/5 stoðsendingar.

Fyrri greinÖruggur sigur í fyrsta umspilsleiknum
Næsta greinÞorvaldur Gauti valinn efnilegasti hlauparinn