Skallamark Bergrósar skilaði stigi

Bergrós Ásgeirsdóttir skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti KR í lokaumferð A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í dag.

Fyrri hálfleikur var markalaus en snemma í seinni hálfleik dró til tíðinda. Barbára Sól Gísladóttir átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem Bergrós Ásgeirsdóttir skallaði í netið af stuttu færi. Selfyssingum hélst þó ekki lengi á forystunni því KR jafnaði metin á 62. mínútu með snyrtilegu marki.

Fleiri urðu mörkin ekki, úrslitin 1-1 jafntefli, og Selfoss lauk keppni í 5. sæti riðilsins með 4 stig, einu stigi á eftir KR sem varð í 4. sæti.

Fyrri greinBaráttusigur Hamars á Þrótti
Næsta greinÞórsarar eltu allan tímann