Skelfileg byrjun varð FSu að falli

Lið FSu tapaði nokkuð sannfærandi gegn Þór Akureyri þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta fyrir norðan í kvöld. Heimamenn lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik en lokatölur voru 78-67.

FSu var ekki með í leiknum á fyrstu mínútunum og Þórsarar komust í 18-3. Selfyssingarnir hysjuðu þó upp um sig í kjölfarið og staðan var 22-19 að loknum 1. leikhluta.

Þór hafði áfram frumkvæðið í 2. leikhluta, náði 13-3 áhlaupi um miðjan leikhlutann og skoraði svo síðustu fimm stig fjórðungsins sem tryggði þeim fimmtán stiga forystu í hálfleik, 45-30.

FSu liðið leit betur út í síðari hálfleik en í 3. leikhluta misstu þeir Ara Gylfason af velli. Ari var ósáttur við dómara leiksins og fékk tvær tæknivillur fyrir meintan munnsöfnuð með örfárra sekúndna millibili. Þór jók forskotið í 64-46 undir lok 3. leikhluta en Aralausir klóruðu Sunnlendingar í bakkann í síðasta leikhlutanum og minnkuðu muninn niður í 11 stig, 78-67.

Daði Berg Grétarsson var stigahæstur í liði FSu með 19 stig og Ari kom næstur honum með 14 stig.

FSu hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni en þeir eiga líklega von á liðsstyrk fyrir næsta leik þar sem bandaríski leikmaðurinn Matt Burrell verður þá að öllum líkindum orðinn löglegur með liðinu.

Fyrri greinMenningarminjar í Herdísarvík í hættu
Næsta greinHvergerðingar héldu haus