Skellur að Hlíðarenda

Álvaro Mallols. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fengu stóran skell gegn Valsmönnum þegar keppni hófst aftur í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld.

Liðin mættust að Hlíðarenda og þar var það Valur sem skoraði fyrstu fjögur mörkin og heimamenn höfðu örugga forystu eftir það. Munurinn varð mestur tíu mörk í fyrri hálfleik, 17-7 en staðan var 18-9 í hálfleik. Bilið hélst svipað fyrra korterið í seinni hálfleiknum en undir lokin juku Valsmenn forskotið hratt og sigruðu að lokum 38-21.

Sveinn Andri Sveinsson og Richard Sæþór Sigurðsson voru markahæstir Selfyssinga með 4 mörk, þar af skoraði Richard 2 af vítalínunni. Ásgeir Snær Vignisson og Álvaro Mallols skoruðu 3, Ragnar Jóhannsson 2 og þeir Hans Jörgen Ólafsson, Gunnar Kári Bragason, Einar Sverrisson, Tryggvi Sigurberg Traustason og Sölvi Svavarsson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 8/1 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot og var með 13% markvörslu.

Fyrri greinÞriðja gula viðvörunin á þremur dögum
Næsta greinÞór með sterkan útisigur en Hamar tapaði