Skellur gegn botnliðinu

Jóhanna Ýr skoraði 13 stig fyrir Hamar/Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór fékk óþarflega stóran skell þegar liðið heimsótti botnlið Vals að Hlíðarenda í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 82-59.

Valskonur voru fljótar að ná undirtökunum, þær komust í 16-8 og leiddu 24-19 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhluti var jafn en Valskonur lokuðu honum með 12-4 áhlaupi og staðan var 42-33 í leikhléi.

Þær sunnlensku voru á hælunum í upphafi seinni hálfleiks og Valskonur juku forskotið í 61-43. Þar með slökknaði vonarneistinn hjá Hamri/Þór og forskot Vals jókst enn frekar í síðasta fjórðungnum.

Abby Beeman var stiga- og framlagshæst hjá Hamri Þór með 14 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði 13 stig og tók 3 fráköst.

Hamar/Þór og Valur eru bæði með 6 stig eftir 9 umferðir, Hamar situr í 6. sæti en Valur í 10. og neðsta sæti.

Valur-Hamar/Þór 82-59 (24-19, 18-14, 19-16, 21-10)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 14/9 fráköst/8 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 13, Hana Ivanusa 11/8 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 7, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 7, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 5/6 fráköst, Fanney Ragnarsdóttir 2.

Fyrri greinHópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss
Næsta greinTvö sunnlensk lög í Jólalagakeppni Rásar 2