Myndir af Selfyssingnum Kristínu Steinþórsdóttur hafa farið eins og eldur í sinu um netheima í dag. Á leik Íslands og Ungverjalands á EM í gær var Kristín alein með íslenska fánann í hjarta stuðningsmannahóps heimamanna.
Kristín birti myndir af þessu á Facebooksíðu sinni í gær en eftir að Sigurður Bragason, handboltaþjálfari og lífskúnstner í Vestmanneyjum, vakti athygli á Kristínu í Ungverjahafinu á Facebook fóru myndirnar á flug.
„Mér var bara alveg sama og leið bara mjög vel í þessum skemmtilega hóp. Þetta var bara gaman og mér leið bara vel. Eftir leikinn vildu margir Ungverjar fá mynd af sér með mér um leið og þeir óskuðu mér til hamingju með sigurinn,“ sagði Kristín í samtali við handbolti.is.
„Ég keypti miðana á leikina svo snemma, áður en HSÍ hóf að selja miða síðasta sumar. Þess vegna lenti ég þarna og skemmti mér konunglega innan um alla Ungverjana,“ sagði Kristín sem var á þessum stað í öllum fyrri leikjum íslenska landsliðsins í riðlakeppninni. Þegar kom að leiknum gegn heimamönnunum var hún umkringd í mannhafi.
„Systir mín átti að vera við hliðina á mér en hún veiktist og varð eftir heima. Þess vegna var ég ein að þessu sinni,“ sagði Kristín sem á miða á leiki Íslands allt til enda og er því ekkert á heimleið strax.
Smellið hér til þess að lesa lengra viðtal við Kristínu á handbolti.is.
Strákarnir okkar voru væntanlega mjög ánægðir með stuðninginn frá Kristínu og birti Björgvin Páll Gústafsson meðal annars mynd af henni á Instagramsíðu sinni.