Í vikunni afhjúpaði hlaupahópurinn Frískir Flóamenn skilti á Frískastaurnum á Selfossi. Staurinn góði er ljósastaur sem staðsettur er við Nauthaga.
Um árabil hefur téður staur verið fastur punktur á æfingum hlaupahópsins Frískra Flóamanna og því þótti kominn tími til að nefna staurinn formlega.
Hróbjartur Eyjólfsson hafði milligöngu um skiltagerðina en skiltið var framleitt á Litla-Hrauni og það voru hann og Bárður Árnason sem hjálpuðust að við að afhjúpa skiltið.
Það má geta þess að Frískir Flóamenn eru með æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10. Allir eru velkomnir á æfingar og munum að æfingin skapar meistarann.