Ný vallarmannvirki voru vígð á Selfossvelli í kvöld fyrir leik Selfoss og Keflavíkur í Pepsi-deild karla.
Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, flutti ávarp og að því loknu var hönnuðum og verktökum færður þakklætisvottur.
Grímur Hergeirsson, formaður Umf. Selfoss, ávarpaði samkomuna og Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, færði Selfyssingum hamingjuóskir og áletraðan skjöld í tilefni dagsins.
Að því loknu spörkuðu ungmenni úr 6. flokki karla og kvenna fyrstu boltunum á vellinum og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur á Selfossi, blessaði mannvirkin. Blessunarorðum Óskars lauk á Faðir vorinu þar sem Skjálftamenn fóru fremstir í flokki í bænahaldinu, enda vanir að fara með Faðir vorið þegar mikið liggur við í leikjum Selfoss.
Að síðustu voru heiðursgestir leiksins kallaðir fram og klappað duglega fyrir þeim en það voru leikmenn meistaraflokks Selfoss sem sigruðu í 3. deild árið 1966 og 2. flokkur karla sem varð bikarmeistari 1966 og Íslandsmeistari 1967.