Þór Þorlákshöfn heimsótti Grindavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Eins og oft áður var spenna og hasar þegar þessi tvö lið mætast en Grindavík hafði nauman sigur, 93-90.
Þórsarar voru ferskari á upphafsmínútunum en síðan tóku Grindvíkingar öll völd og leiddu í leikhléi, 45-34. Þórsarar eygðu endurkomu í 3. leikhluta og náðu að minnka muninn í eitt stig, 65-64. Leikurinn var í járnum allan 4. leikhlutann og munurinn sáralítill lengst af.
Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir höfðu Grindvíkingar 8 stiga forskot og náðu að hanga á sigrinum á lokakaflanum þar sem skjálfti var kominn í Þórsara og þeim gekk illa að hitta. Þór fékk tækifæri til að jafna á lokasekúndunum en misstu boltann frá sér og Grindavík skoraði síðasta stig leiksins af vítalínunni og tryggði sér 93-90 sigur.
Nigel Pruitt var stigahæstur Þórsara með 21 stig, Jordan Semple skoraði 18 og tók 13 fráköst, Darwin Davis skoraði 17 stig og sendi 8 stoðsendingar, Fotios Lampropolous skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Tómas Valur Þrastarson skoraði 13 stig.
Þórsarar eru í toppsætinu með 8 stig, eins og fimm önnur lið en Grindavík er í 6. sæti með 6 stig.